REGLUR BIRTÍNGS

Reglur Birtíngs útgáfufélags ehf. varðandi ritstjórnarlegt sjálfstæði

Birtíngur útgáfufélag ehf. („útgáfan“) gefur út tímaritin Gestgjafann,  Hús og híbýli, Vikuna („tímaritin“) og fríblaðið Mannlíf.

Almennt markmið útgáfunnar er að gefa út tímarit og bjóða upp á fræðslu, skemmtun og afþreyingu með útgáfu vandaðra tímarita þar sem flestir finna eitthvað við sitt hæfi. Útgáfan leggur áherslu á fagmennsku hvað varðar efnistök og málfar, ljósmyndir, útlit og uppsetningu. Tímaritin eru gefin út í hagnaðarskyni, taka ekki flokkspólitíska afstöðu en virða almennt viðurkennd siðferðileg og lýðræðisleg gildi íslensks þjóðfélags.

Ritstjórnarstefna einstakra tímarita er sem hér segir:

Gestgjafinn er leiðandi tímarit í umfjöllun um mat, matargerð, matartengda menningu, framsetningu á mat og umfjöllun um vín og veitingastaði. Gestgjafinn er líflegt og skemmtilegt blað sem gefur lesendum á öllum aldri innsýn í strauma og stefnur á sínu sviði, höfðar til þeirra sem eru lengra komnir í matargerð og vekur áhuga hjá þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor

Hús og híbýli leggur megináherslu á innlit á íslensk heimili bæði hérlendis og erlendis. Tímaritið fjallar líka um hönnun; íslenska og erlenda hönnuði og hönnunarfyrirtæki. Markmið Húsa og híbýla er að gefa fólki innblástur og hugmyndir fyrir heimili sín og því eru efnistök blaðsins fjölbreytt og víðsýn. Mikið er lagt upp úr því að tímaritið prýði vandað myndefni og gæði og vönduð vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi

Vikan lætur sér fátt óviðkomandi hvað konur varðar. Mýkri mál, eins og heilsan, fjölskyldan, útlit, samskipti, matur og menning, eru viðfangsefni blaðsins. Krassandi forsíða, málefnaleg og létt fræðsla í bland við skemmtilega afþreyingu er markmiðið í hverju tölublaði. Hversdagshetjur eru forsíðufyrirsætur í bland við þekkt andlit þegar þau hafa einhverja sögu að segja.

 

Eftirgreindar reglur eru settar á grundvelli 24. gr. laga nr. 38/1911 um fjölmiðla og gilda í allri umfjöllun um fréttir og fréttatengt efni í tímaritum Birtíngs útgáfufélags ehf. Reglurnar gilda einnig að breyttu breytanda þar sem ekki er um að ræða fréttir eða fréttatengt efni.

1. gr.

Ritstjórum og blaðamönnum ber að virða almenn markmið útgáfunnar og ritstjórnarstefnu viðkomandi tímarits. Þeir skulu ávallt gæta þess að láta ekki persónulega hagsmuni, óvild, vináttu eða greiðasemi hafa áhrif á fréttamat eða umfjöllun um menn eða málefni.

Ritstjórnir hafa fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði innan marka 1. mgr. en gæta ber hlutlægni og sanngirni í allri umfjöllun og efnistökum þar sem tekið er tillit til ólíkra sjónarmiða eftir því sem unnt er. Sýna ber þeim aðilum tilhlýðilega virðingu, sem um er fjallað hverju sinni og forðast hæðni, uppnefni eða hvers kyns meinfýsi, hver svo sem í hlut á. Oflof er háð. Ef um vafamál er að ræða t.d. varðandi lögmæti ummæla eða umfjöllunar að öðru leyti ber viðkomandi blaðamanni að leita álits lögmanns útgáfunnar fyrir birtingu að höfðu samráði við ritstjóra. Blaðamanni verður ekki gert að vinna verkefni sem stangast á við sannfæringu hans eða samvisku eða teljast niðurlægjandi. Blaðamenn taka ekki við verkefnum frá öðrum en ritstjórum eða öðrum yfirmönnum á ritstjórn viðkomandi tímartits.

2. gr.

Eigendum og stjórnendum ber að virða ritstjórnarlegt sjálfstæði ritstjórna og er óheimilt að ræða beint við blaðamenn um einstök fréttaskrif heldur skulu mál af því tagi ávallt tekin upp við hlutaðeigandi ritstjóra. Í slíkum samskiptum skulu eigendur og stjórnendur útgáfunnar gæta þess að láta ekki óvild, vináttu eða greiðasemi stjórna afstöðu, aðfinnslum eða athugasemdum við efni og/eða efnistök einstakra tímarita.

3. gr.

Útgáfan skal leitast við að tryggja ritstjórnum eins góða vinnuaðstöðu og fjárhagur leyfir hverju sinni. Ritstjórnir skulu fá ráðrúm, tíma og aðstöðu til að sinna störfum sínum eins vel og frekast er kostur, þ. á m. til að undirbúa og setja sig inn í mál og vinna mál á þann hátt sem blaðamenn telja réttast. Blaðamenn hafa heimild til að nota þau efnistök sem þeir telja best eiga við hverju sinni án sérstakrar leiðsagnar og fréttamats ritstjóra, nema annars sé óskað. Fréttamat ritstjóra og túlkun ræður hvernig og hvað er endanlega birt.

Blaðamenn hafa fullan tillögurétt þegar kemur að því að velja sér efni og hvað varðar úrvinnslu þess. Ef frétt eða nálgun blaðamanns í tilteknu máli er breytt í veigamiklum atriðum á viðkomandi blaðamaður rétt á skýringu ritstjóra á þeim breytingum.

4. gr.

Ritstjóra eða blaðamanni verður ekki sagt upp störfum án skriflegrar skýringar og eru þær skýringar ekki einkamál blaðamanns og útgáfunnar nema blaðamaður óski þess sérstaklega. Að öðru leyti gilda almennar reglur vinnumarkaðarins um áminningu og uppsögn starfsmanna.