GJALDSKRÁ BIRTÍNGS ÚTGÁFUFÉLAGS EHF.

Allt efni sem birtist í útgáfuritum Birtings útgáfufélags ehf., er verndað af ákvæðum höfundarlaga, nr. 73/1972.

Birtíngur útgáfufélag ehf. er eigandi alls efnis, sem birt er í útgáfuritum félagsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Félagið hefur á hendi hvers konar réttarráð sem höfundarrétti fylgja vegna efnis sem félagið á. Þessi réttur nær bæði til myndefnis og texta í útgáfuritunum. Óheimilt er að birta efni tímarita félagsins, svo sem með tilvitnunum eða endursögnum, án skriflegs leyfis félagsins.

Mikill kostnaður fylgir því að framleiða tímaritaefni og er nauðsynlegt fyrir félagið að tryggja fjárhagslega hagsmuni sína. Því hefur félagið samþykkt gjaldskrá þessa fyrir frumkvæðisrétt fréttar, frásagnar eða viðtals og fyrir endursagnir greina eða annars efnis í netmiðlum.

Gjaldskráin gildir um birtingu efnis í eina viku frá útgáfudegi hvers útgáfurits. Aðila er óheimilt að birta efni, sem birt hefur verið í útgáfuriti félagsins, svo sem með tilvitnunum eða endursögnum, án skriflegrar heimildar útgefanda. Slík heimild verður að öllu jöfnu veitt gegn greiðslu á grundvelli gjaldskrár þessarar fyrstu vikuna frá útgáfudegi, en samkvæmt samkomulagi eftir það.

Gjaldskrá Birtíngs útgáfufélags ehf.:

1. Fyrir birtingu eða endursögn efnis, sem birst hefur í útgáfuriti félagsins, skal sá sem slíkt efni birtir innan við viku frá útgáfudegi útgáfurits félagsins greiða birtingargjald, kr. 75.000,-. Gjaldið greiðist einu sinni fyrir hverja frásögn eða frétt sem vitnað er til eða er endursögð. Skylt er að geta heimildar.

2. Sé um að ræða frásögn af viðtali, grein eða öðru efni, sem er vitnað til eða efni endursagt úr útgáfuriti féalgsins, á netmiðli skal auk birtingargjaldsins greiða sérstaklega fyrir hvert orð umfram 50 orð, sem hér segir:

a. Netmiðlar með >50.000 notendur samkvæmt lista Modernus um samræmdar vefmælingar
greiði kr. 50 pr. orð.

b. Netmiðlar með >150.000 notendur samkvæmt lista Modernus um samræmdar vefmælingar
greiði kr. 150 pr. orð.

c. Netmiðlar með >200.000 notendur samkvæmt lista Modernus um samræmdar vefmælingar
greiði kr. 200 pr. orð.

Skylt er að geta heimildar.

Auk gjaldskrár þessarar er áskilinn réttur til þess að krefjast skaða- og miskabóta á grundvelli ákvæða höfundarlaga, nr. 73/1972, vegna heimildarlausrar notkunar efnis.

Samþykkt á stjórnarfundi Birtíngs útgáfufélags ehf., 22. desember 2010.