Sigríður Arnardóttir, eða Sirrý eins og við flest könnumst við hana, býr ásamt manni sínum, Kristjáni Franklín Magnús leikara, í fallegu timburhúsi í Litla-Skerjafirði umvafin garði sem þau hafa nostrað við síðustu 30 árin. Sirrý býr ekki aðeins yfir víðtækri reynslu í gegnum störf sín sem fjölmiðlakona, rithöfundur, kennari, fyrirlesari, framkvæmdastjóri, ráðgjafi og stjórnendaþjálfi heldur hefur einlægur áhugi á garðyrkju fylgt henni alla tíð. Í spjalli við hana fengum við að heyra meira um garðyrkjuáhugann og komumst að því að garðrækt á margt skylt við mannleg samskipti. Það var auðgandi að fá að spyrja Sirrý nokkurra spurninga þar sem hún er ekki aðeins full fróðleiks heldur sameinast í henni fjölbreytt reynsla, fagmennska, innsæi og ákveðinn skilningur á lífinu sem gerir það að verkum að maður leggur við hlustir þegar hún talar. Hljómfögur röddin og smitandi hláturinn eru svo bara kirsuberið sem toppar upplifunina enn frekar.