Eliza Reid forsetafrú hefur verið virk í að koma íslenskum rithöfundum á framfæri og kynna íslenskar bókmenntir erlendis en hún er annar af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegs móts rithöfunda sem hingað koma til að vinna að skriftum í litlum vinnuhópum og kynna sér bókmenntir Íslendinga. Í nóvember síðastliðnum gaf hún svo sjálf út sína fyrstu bók sem ber titilinn Sprakkar: Kvenskörungar Íslands og hvernig þær leitast við að breyta heiminum. Bókin kemur út á ensku víðsvegar um heim á næsta ári. Eliza segist spennt fyrir því að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu, í fyrsta sinn. Hún ræðir hér jafnréttismál, bókaútgáfuna, æskuárin í Kanada og jólin á Bessastöðum.