Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi er samstarfsverkefni félagasamtakanna Hennar rödd og Vía útgáfu. Ritstjórar bókarinnar eru Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir. Chanel og Elínborg stofnuðu Hennar rödd, félagasamtök sem starfa með það að markmiði að auka vitund meðal almennings á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Innblástur verkefnisins kom frá Letetia B. Jonsson, móður Chanel, en hún er af jamaískum og breskum uppruna og bjó hér á landi fyrir um það bil tíu árum síðan. Letetia tók virkan þátt í samfélagi kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og kynntist mörgum frambærilegum konum sem upplifðu sömu hindranir og hún hvað varðar aðlögun að menningu og tungumáli landsins. Sem dóttir Letetia upplifði Chanel ýmsar hindranir sem standa í vegi fyrir konum af erlendum uppruna í gegnum móður sína. Þessir erfiðleikar lituðu reynsluheim Chanel sem blandaður Íslendingur og hvatti hana til þess að takast á við þennan málaflokk. Eftir samræður við vinkonu sína, Elínborgu Kolbeinsdóttur, sem er menntuð í félagsfræði og mannréttindum, ákváðu þær að sameina krafta sína og stofna samtök með það að markmiði að vekja athygli á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Með jafnrétti að leiðarljósi vildu Chanel og Elínborg nota forréttindastöðu sína og skapa vettvang fyrir konur af erlendum uppruna til þess að deila með samfélaginu veruleika þeirra og greina frá málefnum sem þarfnast úrbóta og verða íslensku samfélagi öllu til hagsbóta. Með því að nýta þekkingu og reynslu svo stórs hóps betur í samfélaginu skilar það þeim og fjölskyldum þeirra aukinni hagsæld, sem skilar sér svo aftur út í samfélagið. Bókin Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi er að þeirra mati því einkar mikilvægt framlag í þessari vegferð.
Vikan
Alltaf þörf á aukinni umræðu um stöðu jaðarsettra hópa, því án umræðunnar mun staðan haldast óbreytt
