Verkefna- og viðburðastjórinn Friðrik Agni Árnason hefur ferðast víða. Blaðamaður fékk að heyra frá ævintýrum hans en hann hefur meðal annars búið í borginni Wollongong í Ástralíu, Mílanó á Ítalíu, Stokkhólmi í Svíþjóð og Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það má því segja að Friðrik Agni sé mikill heimsborgari þó svo að hann segist ekki upplifa sig þannig. Lífið hefur bara tekið hann í þessar ólíku áttir á mismunandi tímabilum lífsins og allir staðirnir hafa fært honum eitthvað í reynslu- og minningarbankann. Hann elti dansinn til Ástralíu, elti námið til Ítalíu, elti ástina til Svíþjóðar og vinnuna til Dúbaí. Síðastliðinn desember ákvað hann svo að elta uppruna sinn til Indlands, nánar tiltekið til Mumbai. Hann segir að þó svo að það sé í fyrsta og eina skiptið sem hann hafi komið þangað, sé sú heimsókn kannski sú mikilvægasta sem hann hefur farið í á sinni ævi og jafnframt sú áhrifamesta.
