Rithöfundurinn Sæunn Gísladóttir gaf á dögunum út skáldsöguna Kúnstpása hjá Sölku. Er það hennar fyrsta skáldsaga en hún hefur þó fyrri reynslu af ritstörfum og hefur starfað bæði í fjölmiðlum og við þýðingar. Hugmyndin að sögunni kom til hennar eftir að hún flutti ásamt Agli manni sínum og þriggja mánaða barni á Siglufjörð í leit að nýjum ævintýrum, án nokkurra tengsla við bæinn. Þá hafði hún komið víða við en hún bjó um árabil í Bretlandi, þar áður í Frakklandi og Danmörku og um stutta stund í Rússlandi og Gana. Bókin segir frá Sóleyju, nýútskrifuðum hljómsveitarstjóra á framabraut í Leipzig sem ætlar sér að sigra heiminn. Heimsfaraldur hrekur hana aftur heim til Íslands þar sem hún samþykkir að reka bókabúð afa síns sumarlangt í heillandi smábæ á Norðurlandi, ekki ósvipuðum þeim sem Sæunn hefur sjálf hreiðrað um sig í.
