Hlustandi vikunnar að þessu sinni er söngkonan og tónskáldið Una Stef. Hún hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá árinu 2014 þegar hún gaf út sína fyrstu sólóplötu með frumsamdri sálar/fönk og djass-skotinni popptónlist. Hún hefur verið tíður gestur á vinsældalistum ljósvakans og fengið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, t.d. fyrir lög og söng ársins í flokki popptónlistar. Þá hefur Una einnig verið virk í íslensku djasssenunni og komið fram með mörgu af helsta djasstónlistarfólki landsins og gefið út efni t.d. með Stórsveit Reykjavíkur. Á síðasta ári gaf hún út djassplötuna Hús númer eitt og var í kjölfarið tilnefnd sem djasssöngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Auk þess að starfa sem söngkona og lagasmiður er Una tónskáld og hefur til að mynda gert tónlist fyrir kvikmyndir og kóra.
