Erna Kristín Stefánsdóttir er löngu orðin þjóðþekkt en hún sló í gegn á samfélagsmiðlum þar sem einlæg og hispurslaus framkoma hennar var ferskur andblær í heimi þar sem óraunhæf glansmyndin er oftar en ekki ríkjandi. Síðan þá hefur hún skrifað bækur og haldið námskeið og fyrirlestra og hikar ekki við að nota vettvanginn sem hún hefur skapað sér til þess að takast á við erfið málefni sem aðrir oft þegja um. Síðustu ár hafa verið henni og fjölskyldu hennar mikil þrautaganga en þrátt fyrir allt sem lífið hefur kastað að þeim hafa þau staðið keik og haldið samstíga áfram ferð sinni upp fjallið. Hún segist oft hafa hugsað um það að áföllin sem við göngum í gegnum þurfi ekki að skilja okkur eftir brotin heldur geti brotnir hlutar lífsins vel orðið að fallegu mósaíklistaverki; einstöku og lifandi.