Í nýlega reistu einbýlishúsi búa hjónin Ágúst Arnar Hringsson og Alexandra Eir Andrésdóttir ásamt börnum þeirra þremur; Emil Snæ, Nökkva Má og Emblu Mjöll. Þau fluttu inn í maí í fyrra eftir að hafa varið um tveimur árum í að byggja húsið frá grunni. Húsið er staðsett í Skarðshlíð sem er nýlegt íbúðahverfi í Hafnarfirði en þar hefur á undanförnum árum risið blönduð byggð íbúðarhúsa. Hús þeirra liggur í hlíð sunnan og vestan Ásfjalls með uppland Hafnarfjarðar í bakgarðinum. Fyrstu húsin voru byggð árið 2019, sama ár og þau keyptu lóðina.