María Gomez er mörgum kunn enda hefur hún haldið úti vinsælu bloggi og Instagram síðu um árabil og vakið verðskuldaða athygli fyrir bæði færni sína í eldhúsinu og smekkvísi. Síðasta sumar lét hún langþráðan draum rætast þegar hún setti allt sitt á sölu og flutti ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum til lítils fjallaþorps á Spáni, þaðan sem hún á sjálf rætur sínar að rekja. Ekki voru allir fjölskyldumeðlimir sáttir með flutningana og hafa þeir reynt mikið á bæði hjónabandið og samband hennar við börnin. Sjálf er hún þó sannfærð um að nú sé hennar tími kominn til að lifa lífinu sem hún hefur stefnt að frá unga aldri og líður henni eins og hún sé loksins komin heim.