Linda P fann kærastann á stefnumótaforriti: „Ég vissi að ástin var ekki að fara að banka upp á heima hjá mér.“

Kærastinn kom á frekar óvæntan hátt inn í líf Lindu, í sumarfríi á Mallorca. Hún er þó viss um að forlögin hafi leitt þau saman á hárréttum tíma. „Þetta var dálítið skemmtilegt. Ég hef verið einstæð móðir í átján ár og við mæðgur höfum haft það fyrir hefð að fara alltaf saman í tveggja vikna frí til útlanda á sumrin. Við fluttum til Íslands fyrir nokkrum árum eftir að hafa búið bæði í Kaliforníu og Kanada svo hún gæti farið í íslenskan menntaskóla. Við höfum haft það mjög gott á Íslandi en nú er hún að útskrifast og stefnir á háskólanám í Evrópu í haust og þá sé ég fyrir mér að elta hana yfir á meginlandið og dvelja í heitari löndum yfir vetrartímann. Ég er með liðagigt og það er miklu betra fyrir mig á allan hátt að vera í heitara loftslagi. Þegar ég var að velja áfangastað fyrir þessa árlegu mæðgnaferð okkar í sumar var ég með það á bak við eyrun að ég gæti nýtt hana í að skoða álitlega vetrarsetustaði. Spánn var ofarlega á lista og eftir að hafa kynnt mér málin aðeins leist mér best á Mallorca. Það er smart eyja og smá lúxus,“ segir Linda sem er mikill fagurkeri. Það fór svo að hún bókaði tveggja vikna ferð fyrir þær mæðgur til eyjarinnar fögru. „Það hitti svo þannig á að dóttir mín fór í útskriftarferð til Mallorca nokkrum vikum áður en við ætluðum út. Hún var því ekki mjög spennt að fara þangað strax aftur í tvær vikur með mér, sem ég skildi vel, og við ákváðum að stytta ferðina um viku. Ég var við það að breyta mínum miða en innsæið sagði mér að ég ætti að halda mig við fyrri plön og fara út viku á undan henni og ég er kona sem hlusta á innsæið. Ég sá fyrir mér að þetta væri kjörið tækifæri til að skoða eyjuna, bókaði fund með fasteignasala og stefndi á að fá hann til að sýna mér hús og hverfi en það varð  ekkert úr því og ég endaði á að því að skoða karlmann í staðinn,“ segir hún og hlær dátt.

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi - Prófaðu frítt í 7 daga

Aðgangur að öllum tölublöðum Birtíngs

Lestu greinar og skoðaðu tölublöðin hvar og hvenær sem er

Með áskrift að vef Birtings getur þú lesið greinar og tölublöð þegar þér hentar. Þú getur einnig vistað tölublöðin á tækið þitt fyrir ferðalagið.