Margrét Pálmadóttir, kórstjóri og tónlistarkona, er mikill frumkvöðull þegar kemur að kórastarfi á Íslandi. Hún hefur komið víða við á sínum ferli en árið 2000 opnaði hún söngskólann Domus Vox ásamt þeim Stellu Óladóttur og Stefáni S. Stefánssyni. Þar eiga fjórir vinsælir kórar sem Margrét stofnaði aðsetur, Cantabile, Vox Feminae, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora kammerkór.
Í dag stjórnar hún tveimur þeirra og dóttir hennar, Sigríður Soffía, þeim þriðja. Þær mæðgur standa nú í ströngu við að undirbúa árlega jólatónleika kóranna sem fara fram í Hallgrímskirkju þann 6. desember. Marka tónleikarnir mikil tímamót en það eru þrjátíu ár síðan Margrét hélt í fyrsta sinn aðventutónleika í kirkjunni á Skólavörðuholti og hefur hún haldið í þá hefð síðan með örfáum undantekningum.
Við settumst niður með Margréti, Siggu Soffíu og yngri dótturinni Matthildi og spurðum þær út í tónleikana, sönginn, jólahefðir og bakstur.