Árni Már Erlingsson er orðinn þekkt andlit innan íslensku listasenunnar. Hann lýsir sér sem opnum, hressum og skemmtilegum listamanni en reynsla hans nær yfir breitt svið. Hann er einn af stofnendum Gallery Ports sem er sífellt að stækka umfang sitt. Í upphafi átti götulistin hug hans allan en jafnt og þétt hefur stíllinn þróast í aðra átt. Í dag einkennast verk hans mörg hver af persónulegri reynslu, tengingu við sjóinn, óútreiknanlegum formum og litum þar sem hann notast ýmist við hefðbundinn eða óhefðbundinn efnivið.
